Faldbúningur eldri

Fyrir 1800

Í skriflegum heimildum er að finna frásagnir af litskrúðugum klæðnaði kvenna á 17. og 18. öld. Þetta styðja samtíma málverk og teikningar.  Þar sjást konur í rauðum og grænum pilsum með gular svuntur.

Miklar heimildir er einnig að finna í innfluttningsskýrslum á 18. öld. Þær sýna að hingað til lands var flutt inn hráefni til fatagerðar frá Danmörku. Þó svo fjölbreytileikinn væri sjálfsagt ekki eins mikill og þar, var um sömu efni og liti að ræða.

.

Sýnishorn í innflutningsskýrslum Hörmangarafélagsins frá 1743-1756 sýna það. Litrík ullarefni í ýmsum þykktum var þar að finna. Einnig flauel, damask, áprentuð bómullarefni, flannel, callemang og silki.

Upplýsingar úr dánarbúum

Dánarbú frá þessum tíma sýna líka að fjölbreytileikinn var mikill. Miklar og dýrmætar upplýsingar er þar að finna. Við andlát fólks voru allar reitur þess skráðar og fatnaði stundum lýst.
 Þar er til dæmis að finna:
  • Prjónaðar skyrtur. Léreftsskyrtur með prjónuðum ermum. Prjónuð undirpils og treyjur með prjónuðum ermum
  • Upphlutir úr klæði, damaski og flaueli í ýmsum litum. Lagðir ekta eða óekta borðum og kniplingum
  • Pils og svuntur í ýmsum efnum í ósamstæðum litum  og með ýmiskonar skreytingum

Þessar heimildir sanna að Íslendingar hafa haft efni og tillegg til fatagerðar eftir nýjustu tísku í Evrópu. Ekki þarf að efa að tískustraumar hafa borist hingað til lands. Þótt samgöngur væru ekki eins miklar og tíðar og síðar varð.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur eldri. Stúlka í stiga.

Auður í faldbúningi eldri, höfuðbúnaðurinn teygir sig hátt

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur eldri.

Faldbúningur eldri, endurgerð af búningi Rannveigar Filipusdóttur Sívertsen. Búningurinn er á Byggðasafni Hafnarfjarðar. Það voru nemendur og eigendur Annríkis sem unnu verkið

Faldbúningur á 17. öld

Ekki er mikið vitað um faldbúning á 17. öld. Þó eru til málaðar minningartöflur frá seinni hluta aldarinnar á Þjóðminjasafni Íslands. Þær sýna að konur hafa klæðst t.d. rauðum pilsum og svörtum hempum. Einnig báru þær hvíta stífaða pípukraga eða rufkraga. Á höfði báru þær hvítan fald. Sumar með klút um faldinn. Aðrar með hatt ofan á.

Gera má ráð fyrir að kraginn litli hafi verið fastur við hálsmál treyjunnar til að bera uppi hvíta pípukragann. Sá siður hafi svo haldist löngu eftir að þær hættu að nota hann.

Elstu dánarbúsheimildir greina frá að konur hafi átt prjónaðar treyjur. Klæðistreyjur með prjónuðum ermum og seinna klæðistreyjur.

Innst fata báru þær skyrtu. Þá upphlutinn með áföstu fati eða undirpilsi. Utan yfir báru þær jafnvel fleiri lög af undirpilsum. Þar til kom að klæðispilsinu skreytta. Svo kom svuntan þar yfir með þremur svuntuhnöppum.

Pils og svuntur áttu þær í ýmsum efnum og litum. Líklegt er að svuntur hafi ekki verið samstæðar pilsi og ekki endilega með sömu skreytingu.

Í mittið var belti úr málmi eða flauelisbelti með belsti pari. Það var skreytt baldýringu, knipli eða perlusaumi. Á því hékk svuntan.

Um hálsinn er oft talað um hvítt lín eða klúta sem mikið var flutt inn af. Utanyfirflíkin var hempan sem hefur þróast í gegnum árin og hatturinn á faldinum.

Litríkur búningur

Heimildir sýna að fatnaður var litríkur á 18. öld.

Efri hlutinn

Nærskyrtan og undirpils voru þarfaþing. Mikið saumað úr ýmiskonar lérefti og flanneli. Stundum prjónað, einnig úr heimaofnum efnum.

Upphlutir voru gjarnan úr litríkum efnum t.d. blátt, rautt, grænt. Ull, damask og flauel (pluss) kemur víða fyrir. Upphlutir voru yfirleitt lagðir leggingum á baki. Ýmist tilbúnum innfluttum borðum úr flaueli oft með mynstri, líberíborðum eða knipluðum leggingum. Skreytingar á boðungum oft litrík baldýring eða líberíborði.

Treyjur voru svartar og bláar mest saumaðar úr ull, klæði og vaðmáli, en einnig úr flaueli. Þær voru lagðar flauelisleggingum, líberíborðum og jafnvel kniplingum á baki og í handveg. Fremst á ermum gátu verið uppslög með leggingum og var þá ermin einnig lögð á yfir- og undirermasaumi.

Kragar voru áfastir við treyjuna. Þeir voru oft þykkir og linir og þannig liprari á treyjunni. Þeir voru gjarnan litríkir bæði í efnisvali út útsaumi.

Neðri hlutinn

Pils og svunta var saumað úr ullarefnum klæði, vaðmáli og damaski. Helstu litir eru rautt, grænt, blátt og svart. Pils og svunta gátu verið í sitthvorum lit t.d. rautt pils og blá svunta.

Líklega hafa konur átt fleiri en eina svuntu við pilsið úr ólíkum efnum og með mismunandi skreytingum. Pilsin voru lögð innfluttum borðum og snúrum. Þau voru einnig skreytt fögrum útsaum og kniplingum. Svuntur voru skreyttar á sama máta.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur yngri og faldbúningar eldri. Telma Rún, Hanna Lind og Auður.

Faldbúningar í endurgerð Hildar. Telma Rún í faldbúningi yngri, Hanna Lind í Viðeyjarbúningi og Auður faldbúningi eldri

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur eldri og 20. aldar peysuföt

Christina og Klara í faldbúningi eldri og 20. aldar peysuföt

Höfuðbúnaður

Höfuðbúnaður var krókfaldur settur saman úr tröfum. Hann þróaðist mikið alla öldina. Helstu heimildir eru skriflegar lýsingar og teikningar.

Faldurinn teygist til himins

Faldurinn þróaðist mikið á öllum þessum tíma. Hann var vafinn í hvert sinn úr hvítum stífuðum tröfum eða klútum. Upphaflega hefur faldurinn verið frekar lágur. Síðan hækkaði hann og teygðist hátt til himins. Þá var hann orðinn erfiður til brúks.

Myndir sýna að faldurinn hafði ýmis form eftir tímabilum og þá sjálfsagt tísku. Daglega hafa konur vafið höfuð sitt með hvítum klút „skuplu“. Enda ekki til siðs að fólk gengi um berhöfðað.

Á Þjóðminjasafni Íslands eru varðveitt áhöld s.s. trafakefli, trafastokkur og trafaöskjur. Þau sýna hversu miklu máli skipti að halda þessum hvíta höfuðbúnaði fínum.

Faldbúningur eldri í þróun

Á seinni hluta 18. aldar var búningurinn farinn að breytast í takt við nýja tíma. Gott dæmi um það er faldbúningurinn sem var í eigu Stephensenættarinnar í Viðey, saumaður af Guðrúnu Skúladóttur.

  • Pils og svunta er úr bláu klæði með nýtísku blómamynstri
  • Upphluturinn úr grænu flaueli með áföstu undirfati
  • Treyjan úr svörtu flaueli fagurlega skreytt baldýringu og líberíborðum
  • Áfastur kraginn einnig skreyttur baldýringu
  • Hempan sem fylgir er svört með flauelisleggingum. Á hana eru saumaðir tveir stórir brjóstskyldir og fjöldi spennsla
  • Gríðarlega mikið skart fylgir þeim búningi enda um eign hefðarkonu að ræða

Viðeyjarbúningurinn er núna varðveittur í Victoria & Albert Museum í London.

Faldbúningur eldri