Skautbúningur

Sigurður málari Guðmundsson

Skautbúningur er hugmynd Sigurðar Guðmundssonar málara (1833 – 1847). Hann var merkilegur maður og lét sig allt varða sem bæta mætti íslenskt samfélag. Árið 1849 fór hann til náms í Danmörku. Þar stundaði hann listmálun í Kaupmannarhafnarakademíunni. Sumarið 1856 ferðaðist hann til heimalandsins en kom alkominn 1858. Þá sneri hann sér að því að hvetja og efla þjóðernis- og fegurðarvitund landans.

Til „gagns og til fegurðar“ voru hans kjörorð. Búningar íslenskra kvenna áttu þar stóran sess. Merk ritgerð eftir Sigurð birtist árið 1857 í Ný félagsrit. „Um kvenbúninga á Íslandi að fornu og nýju“.  Hvatti hann íslenskar konur til að leggja ekki niður notkun hefðbundinna íslenskra búninga. Hann hvatti þær til hefja þá til vegs og virðingar.

Sigurður var vel lesinn í íslenskum fornsögum og  norrænum fræðum. Hann hafði líka upplifað stórborgarlíf með nýjastu tísku í Evrópu. Greina mátti tískustrauma stórborgarinnar í hugmyndum Sigurðar um nýja íslenska kvenbúninga byggða á íslenskum hefðum.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Stokkabelti á skautbúningi og baldýring í boðungum.

Blómamynstur voru í uppáhaldi hjá Sigurði. Skauttreyja með baldýruðu blómamynstri. Stokkabelti borin við búninginn

Stúlka í skautbúningi

Telma Rún í skautbúningi. Skautbúningur var fyrst borin 1859

Skautbúningur fyrst borinn 1859

Skautbúningur er afar áhugaverður og merkilegur í íslenskri búningasögu. Hann varð til í hringiðu þjóðernisrómantíkur og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga um miðja 19. öld.

Búningurinn var fyrst borinn 1859. Þróaðist hann í samstarfi Sigurðar málara og íslenskra kvenna.

Umræðan í samfélaginu var á þann veginn að konur ættu að leggja faldbúningunum. En þeir höfðu verið mesti sparibúningur íslenskra kvenna um aldaraðir. Þóttu búningarnir fornfálegir. Betra væri að taka upp hámóðins „danskan búning“.

Búningahugmynd Sigurðar var byggð á þjóðernisrómantík. Konan var móðirin og fjallkonan í öndvegi þjóðar. Einnig kunni Sigurður að meta listrænt handverk kvennanna. Það fékk notið sín í skreytingum búninganna.

„Nýji faldbúningurinn“

Sigurður hvatti til breytinga á gamla faldbúningnum í átt til Evróputískunnar.  „Nýji faldbúningurinn“ skyldi vera svartur. Það færi íslenskum konum best.

Treyjan stutta skyldi nú ná niður í mitti svo ekki þurfti lengur upphlutinn undir. Skreytingar á treyjunni átti að sauma meðfram boðungum og hálsmáli svo ekki þurfti lengur litla kragann.

Ný mynstur litu dagins  ljós og í fyrstu voru það grískir og býsanskir bekkir. Auk þess hafði Sigurður mikið dálæti á fornum útskurðarmynstrumBlómamynstrin urðu til í samvinnu Sigurðar og samstarfskvenna hans. Búningurinn sjálfur hafði þannig skírskotun í náttúruna þar sem laufviðar- og blómabekkirnir liðuðust um hann.

Nýr höfuðbúnaður

Höfuðbúnaðurinn var alveg nýr. Lýsti Sigurður honum á afar rómantískan hátt sem jökulfaldi, snjóbreiðum og sólargeislum

Fjöldi teikninga er af nýja höfuðbúnaðinum í vasabókum sem Sigurður skyldi eftir sig. Þetta sýnir hversu leitandi hann var. Leitin var aftur til „upprunans“. En uppruni skautfaldsins sjálfs var frá grískum þrælum kominn, Friggja, Phrygian cap. Þar var komin fyrirmyndskautfaldinum.

Þessi sami höfuðbúnaður var fyrirmynd Frakka að byltingarhúfunni Bonnet rouge.   Bandaríkjamenn notuðu hann einnig í byltingar- og sjálfstæðistáknum sínum.

Íslenski skautfaldurinn hafði aðra og rómantískari skírskotun eða í náttúru Íslands. Faldurinn var tákn snæviþakinna fjallatoppa og blæjan snjóbreiðan. Á þessum tíma var blæjan og kóróna (vail and tiara) mjög í tísku meðal evrópskra hefðarkvenna. Viktoría drottning innleiddi þá tísku við hirð sína.

Hlaðinn táknum

Það má með sanni segja að skautbúningurinn beri í sér margþættan boðskap. Hér var kominn hátísku íslenskur kvenbúningur. Byggður á íslenskum hefðum og náttúrurómantík sem undirstrikaði þjóðernið.

Búningurinn var unnin undir sterkum áhrifum frá  Evróputískunni sem Victoria drottning hafði mikil áhrif á. En sem ekkja bar hún t.d. svartan sorgarbúning til margra ára.

Síðast en ekki síst var hann pólitískt tákn á tímum sjálfstæðis- og þjóðernisvakningar. Glæsilegur og nútímalegur búningur smáþjóðar sem barðist fyrir tilveru sinni. Íslenskur þjóðbúningur sem hæfði öllum fjallkonum Íslands.

Höfuðbúnaður skautbúnings

Snæviþaktir fjallatoppar og snjóbreiðan, tákn faldsins og blæjunnar.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Belti á skautbúningi.

Hátískusparifatnaður og táknmynd kvenna sem stóðu fremstar í sjálfstæðis– og kvenréttindabaráttu um og eftir aldamótin 1900

Hugmyndum vel tekið

Íslenskar konur tóku hugmyndum Sigurðar og hvatningu fagnandi. Strax á 7. áratug 19. aldar varð til fjöldi fagurra skautbúninga. Konur með sína handverksþekkingu höfðu lag á að koma sér upp slíkum búningi. Jafnvel þótt efni væru ekki alltaf mikil. Sumt var saumað nýtt en annað endurnýttu þær úr gamla faldbúningnum. Með smá breytingum gerðu þær gamla búningshluta að nýjum.

Hátískusparifatnaður

Vinsældir skautbúningsins urðu miklar. Fjöldi kvenna eignuðust búninginn á næstu árum. Hann var þjóðlegur hátískusparifatnaður. Þegar tíminn leið varð hann einnig táknmynd kvenna. Kvenna sem stóðu fremstar í sjálfstæðis– og kvenréttindabaráttu um og eftir aldamótin 1900. Kostningarétt hlutu konur árið 1915.

Skautbúningur hefur lifað góðu lífi og þróast í gegnum árin. Eins og aðrir íslenskir búningar hefur hann gengið í gegnum ýmislegt á þessum tíma. Elsti varðveitti skautbúningur landsins var saumaður af Sigurlaugu Gunnarsdóttur í Ási Hegranesi.

Skauttreyjan

Skauttreyja nær niður í mitti og er krækt saman að framan með krókum. Ermar eru ísettar með púffi í ermakúpu. Þær þrengjast fram á úlnlið. Treyjan er með samfelldum skreytingum meðfram boðungum og hálsmáli. Samskonar skreyting er framan á ermum.

Skreytingar geta verið baldýruð blómamynstur með silfur- og gullþræði eða silki, kniplingar eða snúrulagðir grískir og býsanskir bekkir. Skreytingar eru saumaðar á flauel sem saumað er á treyjuna. Treyjan er alltaf fóðruð. Á 20. öld var gjarnan saumuð blúnda framan á ermar og í hálsmál.

Brjóst er lítið hvítt stífað stykki úr lérefti sem notað er undir barm treyjunnar. Það er langoftast hvítt. Það getur verið skreytt með ýmsum aðferðum. Algeng eru brjóst með hvítsaumi, skreytt blúndu úr lérefti eða heklaðri.

Fyrir kom að konur notuðu svart bjóst en það er ekki algengt nú til dags.

Samfella

Pils – samfella er ökklasítt pils með mikilli vídd. Fellt undir streng í mitti. Pilsið getur verið lagt borðum en er oft með útsaumuðum bekk niður undir faldi. Algengustu skreytiaðferðir eru blómsturspor, skattering, flatsaumur, kúnstsaumur og lykkjuspor. Einnig eru til varðveitt pils með einlitum flauelisskurði í svörtu, grænu og brúnleitu. Oft er snúrulagt með fram mynstrinu.

Litasamsetning í útsaumi er mjög misjöfn, oft einlit í grænu, ljósbrúnu eða gulleitu en líka svörtu. Til eru pils útsaumuð með miklu og litríku blómaskrúði. Garn í útsauminn er af ýmsum gerðum silki, árórugarn, perlugarn og ullargarn.

Útsaumurinn er hulinn á bakhlið með skófóðri.

Flestir skautbúningar eru svartir þó til séu dæmi um annað. Upphaflega voru þeir saumaðir úr klæði. Síðan fylgdu þeir þróun efna og tísku í tímanna rás. Búningar úr silkisatíni, polyestersatíni, flaueli o.fl. hafa varðveist. Snið búninganna, sérstaklega treyjunnar hefur einnig þróast eftir tísku hverju sinni.

Undirpils voru þarfaþing. Sniðin fóru mikið eftir tískunni hverju sinni. Fram undir aldamótin 1900 báru konur gjarnan krínólínur. Er leið inn á 20. öldina minnkuðu undirpilsin og umfang þeirra varð minna. Þau gátu verið úr heimaofnum ullarefnum eða fínum bómullarefnum. Á seinnihluta 20. aldar voru undirpilsin úr þunnum gerviefnum.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma Rún í skautbúningi.

Samfelldar skreytingar meðfram boðungum og hálsmáli. Samskonar mynstur er framan á ermum

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Brjóst undir peysuföt eða skautbúning.

Skreyting á brjósti; hvítsaumur, blúnda úr lérefti eða hekluð

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma Rún í skautbúningi, séð aftaná.

Ídregið blómamynstur úr hvítum fínum þræði og blúnda í útbrún

Skautfaldurinn

  • Skautfaldurinn er alltaf hvítur. Nokkurskonar húfa úr bómull fyllt upp með tróði, oft ull áður fyrr. Til að stífa faldinn er notaður pappi og stundum teinar. Utan yfir faldinn er önnur hvít húfa úr silki eða fínni bómull. Hún liggur laus nema fest niður að aftan. Faldurinn er festur í hárið með kambi og spennum
  • Blæja úr tjulli er sett yfir faldinn. Hún er títuprjónuð í ytri húfuna neðst við höfuðið. Áður er hún dregin saman með þar til gerðu bandi svo hún passi utan um faldinn. Oftast er blæjan hvít en í upphafi notuðu konur þær líka svartar. Síðar varð það sorgartákn. Blæjur geta verið missíðar oftast niður á mitt bak. En alveg niður undir gólf við brúðkaup. Tjullið var oftast úr bómull eða silki. Nú er einnig notað polyestertjull. Oft getur blæjan verið með ídregnu blómamynstri úr hvítum fínum þræði. Nánast alltaf er blúnda í útbrún
  • Hnúturinn er slaufa sem útbúin er úr fallegum hvítum eða ljósum satínborða. Hann er festur að aftan með títuprjónum. Þannig hylur hann samskeyti blæju og spangar/koffurs/stjörnubands

Skartið

  • Spöng, koffur eða stjörnuband er sett utan um höfuðbúnaðinn. Hnýtt saman að aftan  og hvílir á höfðinu
    • Spöng er heil örlítið sporöskjulaga kóróna smíðuð úr silfri. Gyllt ef þess er óskað. Hún er oftast óskreytt fyrir utan mynsturkant í neðri brún. Hún getur þó verið skreytt með ágröfnu blómamynstri, víravirki og jafnvel loftverki
    • Koffur er samansett úr miðjustykki að framan sem rís nokkuð hátt. Til hliðar eru 3-4 minni stykki sem hlekkjast saman.  Koffrið er oftast skreytti víravirki og undir eru sléttar plötur
    • Stjörnuband er stífað hvítt léreftsband u.þ.b. 3-4 sm á breidd. Á það eru festar stjörnur eða önnur smástykki svo úr verður langur renningur

Spöng og koffur er oftast sett utan um fald og blæju, en stundum undir tjullið. Stjörnuband sést mjög oft á gömlum myndum undir tjullinu.

Þjóðbúningur

Skautbúningur og kyrtill eru enn í dag með mestu sparibúningum íslenskrar kvenþjóðar. Þeir verðskulda sannarlega virðingarheitið þjóðbúningur. Þetta eru búningar fjallkonunnar enda urðu þeir til á þeim tíma sem rómatískar þjóðernishugmyndir risu sem hæst.

Notkun búninganna hefur risið og hnigið í gegnum áratugina en aldrei horfið algerlega. Þeir hafa þróast í notkun eins og aðrir lifandi búningar. Búningarnir hafa gengið í gegnum allar þær tískusveiflur sem fram hafa komið á líftíma þeirra.

Þegar varðveittir búningar eru skoðaðir má sjá hvernig snið, efni og skreytiaðferðir hafa breyst. Tíðarandi setur þannig svip á búningana hverju sinni.

Annríki - Þjóðbúningar og skart - Spöng

Spöng er oftast óskreytt fyrir utan mynsturkant í neðri brún

Skautbúningur