20. aldar peysuföt

Peysan og brjóstið

20. aldar peysuföt fylgdu efnisþróuninni og var efnisval eftir því sem fékkst hverju sinni. Varðveittir eru búningar úr fínu ullarklæði, silki- og polyestersatíni sem og flaueli.  Í dag eru peysurnar oftast saumaðar úr svörtu léttu ullarefni. Pilsin oftast úr sama efni.

Eftir því sem leið á öldina varð hálsmálið kringdara. Ermarnar urðu með miklu púffi eða fellingum. Framan á boðungum eru ásaumaðir flauelisrenningar. Flauelisrenningar eru einnig framan á ermum. Hvít eða svört blúnda er gjarnan þrædd framan á ermar.

Peysan er krækt saman að framan nema yfir hábarminn. Opið framan á peysunni látið opnast meira en áður.  Brjóstið er þar undir og breikkaði einnig til að hylja barminn. Brjóst er lítið hvítt, stífað léreftsstykki sem þróaðist frá nærskyrtunni.

Þetta stykki er skreytt á ýmsan máta með ásaumaðri blúndu, handunninni eða innfluttri. Finna má brjóst með fögrum útsaumi. Brjósin eru langoftast hvít en þó má finna svört brjóst.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 20. aldar upphlutur.

 Telma Rún í 20. aldar peysuföt. Borin er grunn prjónuð húfa eða flauelishúfa með svörtum silkiskúf

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 20. aldar upphlutur.

Á 20. öld varð vinsælt að hafa slifsi og svuntu í stíl

Slifsi á 20. aldar peysuföt

Við hálsmál er þrætt slifsi sem getur verið með ýmsu móti. Slifsi eru mjóir, ílangir renningar í ýmsum litum sem þræddir eru við hálsmál peysunnar. Oftast var slifsi saumað úr fínasta silki eða öðru fínerí.

Þegar leið á 20. öldina áttu slifsin eftir að breikka og skreytingarnar urðu fjölbreyttari. Varðveist hafa slifsi ámáluð og með útsaumi af ýmsum gerðum. Á endum var gjarna ásaumað kögur eða gengið frá þeim í spíss.  Á 20. öld varð vinsælt að hafa slifsi og svuntu úr sama efni.

Pilsið og svuntan

Pilsið er saumað úr tveimur síddum af efni sem er a.m.k. 140 sm á breidd. Efnið er fellt þannig að það passi í mitti konunnar. Einkenni pilsins er fjöldi falla á bakhluta þess. Aðferðin við að fella pilsið hefur þróast mjög í gegnum árin. Ekki er hægt að segja að nein ein aðferð sé rétt. Gjarnan er settur vasi á pilsið og að neðan er það faldað með ca 30 sm skófóðri.

Svuntan er höfð styttri en pilsið. Hún er einnig styttri í mittið þannig að föllin aftan á pilsinu sjást vel. Svuntan er fest saman í vinstri hlið með hnappi eða svuntupari.

Á 20. öld varð vinsælt að hafa svuntur og slifsi úr sama efni. Það var þó ekki algilt.

Framleiðsluþróunin réð því hvað var í tísku og finna má gamlar svuntur úr þeim efnum sem flutt voru inn til fatagerðar. Það finnast einnig svuntur og slifsi með ámáluðu mynstri sem voru unnin hér á landi.

Húfan og skartið

Í lok 19. aldar var húfan orðin grunn með svörtum silkiskúf. Þegar leið á 20. öldina hófu konur að sauma hana úr flaueli með svörtum löngum silkiskúf og fögrum hólkum. Við 20. aldar peysuföt er borin grunn prjónuð húfa eða flauelishúfa með svörtum silkiskúf.

Skartið við peysuföt er aðallega hólkur á húfu. Brjóstnæla og svuntuhnappur eða svuntupör til að halda svuntunni saman að aftan. Peysufatakúlur fóru konur að bera á 20. öld. Uppruni þeirra eru gömlu svuntuhnapparnir á faldbúningum sem konur voru hættar að bera.

Þegar leið á 20. öldina fóru konur einnig að bera belti við peysufötin. Enn þann dag í dag eru deildar meiningar um hvort það eigi að gera.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 20. aldar upphlutur.

 Telma Rún í 20. aldar peysuföt.  Í dag eru peysurnar oftast saumaðar úr svörtu léttu ullarefni. Pilsin oftast úr sama efni

Peysuföt 20. aldar