Kyrtill

Nýr hátíðabúningur

Sigurður Guðmundsson málari var hugfanginn af hugmyndinni um kyrtil. Búningur sem hann byggði á búningum landnámskvenna.

Kyrtillinn var nýstárleg flík um 1860. Þá voru konur vanar að ganga í tvískiptum búningum, ekki heilum síðum búningum. Kyrtilinn átti að sauma úr léttari efnum og jafnvel í litum.  Auk þess áttu skreytingar að vera einfaldari t.d. léttari útsaumur eða lek í stað legginga.

Sami höfuðbúnaður skyldi borinn við bæði skautbúning og kyrtil. Minna skart þurfi við kyrtilinn.

Kyrtill var fyrst borinn á dansleik 1871 og var hann fyrst nefndur dansbúningur. Kyrtill varð vinsæll búningur enda reyndist hann auðveldari og þægilegri í dansinum.

Búningar fjallkonunnar

Skautbúningur og kyrtill eru enn í dag með mestu sparibúningum íslenskrar kvenþjóðar. Þeir verðskulda sannarlega virðingarheitið þjóðbúningur. Þetta eru búningar fjallkonunnar enda urðu þeir til á þeim tíma sem rómatískar þjóðernishugmyndir risu sem hæst.

Notkun búninganna hefur risið og hnigið í gegnum áratugina en aldrei horfið algerlega. Þeir hafa þróast í notkun eins og aðrir lifandi búningar. Búningarnir hafa gengið í gegnum allar þær tískusveiflur sem fram hafa komið á líftíma þeirra.

Þegar varðveittir búningar eru skoðaðir má sjá hvernig snið, efni og skreytiaðferðir hafa breyst. Tíðarandi setti þannig svip á búningana hverju sinni.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Bylgja Júlíusdóttir í kyrtli.

Bylgja Júlíusdóttir í kyrtli. Skreytingar eru saumaðar á berustykki, framan á ermar og neðan á fald

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Stokkabelti við kyrtil.

Belti geta verið mismunandi við kyrtil oft notað stokkabelti

Skreytingar

Kyrtill er heilsniðin ökklasíð flík. Þröng yfir axlir en víkkar niður að faldi. Hann er með ísettum ermum sem víkka fram á við.

Skreytingar eru saumaðar á berustykki, framan á ermar og neðan á fald. Mynstur þá haft stærra á faldi en að ofan. Mynstur og skreytingar geta verið ýmiskonar. Stundum þau sömu og á skautbúningi en þá oft eingöngu saumaðar útlínur. Allar skreytingar eru huldar á bakhlið með fóðri.

Greinilegt er miðað við varðveitta búninga að konur fóru fljótlega að gera kyrtlana eftir sínu höfði.  Til eru tvískiptir kyrtlar með ökklasíðu pilsi og efri hluta sem girtur er niður undir pilsið.

Upphaflega voru kyrtlarnir saumaðir úr léttum efnum. Til eru kyrtlar úr öllum þeim efnum sem í boði hafa verið hverju sinni t.d. silki, bómull, flaueli og ull.

Það sama má segja með skreytingarnar en til eru kyrtlar með einföldum og flóknum útsaum, leggingu, lekum og allskonar innfluttum fínum borðum. Allt hráefni var notað sem til var hverju sinni.

Höfuðbúnaður

  • Skautfaldurinn er alltaf hvítur. Nokkurskonar húfa úr bómull fyllt upp með tróði, oft ull áður fyrr. Til að stífa faldinn er notaður pappi og stundum teinar. Utan yfir faldinn er önnur hvít húfa úr silki eða fínni bómull sem liggur laus nema fest niður að aftan. Faldurinn er festur í hárið með kambi og spennum
  • Blæja úr tjulli er sett yfir faldinn. Hún er títuprjónuð í ytri húfunnar neðst við höfuðið. Áður er hún dregin saman með þar til gerðu bandi svo hún passi utan um faldinn. Blæjan er oftast hvít en í upphafi notuðu konur líka svartar blæjur sem síðar urðu sorgartákn.  Blæjur geta verið missíðar oftast niður á mitt bak en alveg niður undir gólf við brúðkaup. Tjullið var oftast úr bómull eða silki en nú er einnig notað polyestertjull. Blæjan getur verið með ídregnu blómamynstri úr hvítum fínum þræði og nánast alltaf með blúndu í útbrún
  • Hnúturinn er slaufa sem útbúin er úr fallegum hvítum eða ljósum satínborða. Hann er festur að aftan með títuprjónum og hylur þannig samskeyti blæju og spangar/koffurs/stjörnubands

Skartið

  • Spöng, koffur eða stjörnuband er sett utan um höfuðbúnaðinn. Hnýtt saman að aftan  og hvílir á höfðinu
    • Spöng er heil örlítið sporöskjulaga kóróna smíðuð úr silfri. Gyllt ef þess er óskað. Hún er oftast óskreytt fyrir utan mynsturkant í neðri brún. Hún getur þó verið skreytt með ágröfnu blómamynstri, víravirki og jafnvel loftverki
    • Koffur er samansett úr miðjustykki að framan sem rís nokkuð hátt. Til hliðar eru 3-4 minni stykki sem hlekkjast saman.  Koffrið er oftast skreytt víravirki og undir eru sléttar plötur
    • Stjörnuband er stífað hvítt léreftsband u.þ.b. 3-4 sm á breidd. Á það eru festar stjörnur eða önnur smástykki svo úr verður langur renningur

Spöng og koffur er oftast sett utan um fald og blæju, en stundum undir tjullið. Stjörnuband sést mjög oft á gömlum myndum undir tjullinu.

Spöng og stjörnuband á faldi

Skart getur verið mismunandi á höfuðbúnaðinum. Bylgja er með spöng en Hanna Lind með stjörnuband

Kyrtill