Upphlutur

Sérstakur búningur

Upphlutur er nafn á búningi sem borinn hefur verið í ríflega öld. Hann hefur verið sérstakur búningur alla 20. öldina.

Nafnið er komið frá efri hluta búningsins. Um nokkurs konar vesti er að ræða og þá er pilsið nefnt niðurhlutur. Upphluturinn var upprunalega hluti annars eldri búings sem nefnist faldbúningur.

Við faldbúning þjónaði upphluturinn sem korselett. Stutt treyja var borin yfir svo sást í upphlutinn undir. Ekki er vitað með vissu frá hvaða tíma faldbúningurinn er. Gera má ráð fyrir að hann hafi verið í notkun og þróast samkvæmti tísku og efnisúrvali í a.m.k. 2-300 ár.

Upphlutur í þróun

Þannig hefur upphluturinn einnig þróast á löngum tíma. Sem sérstakur búningur var hann fyrst notaður í upphafi 20. aldar. Þróun hans í þessa átt byrjað um 1860.

Þá varð skautbúningur til úr gamla faldbúningnum. Skauttreyjan nær niður í mitti. Því þurfti ekki lengur upphlutinn undir.

Konur fóru að nota búninginn með hvítri skyrtu, svörtu pilsi og svuntu. Þetta þótti nokkuð róttækt því raunverulega voru þær á undirfötunum.

Í upphafi 20. aldar áttu sér stað miklar breytingar. Íslendingar voru óðum að tæknivæðast. Þeir kröfðust sjálfstæðis. Konur kröfðust aukinna réttinda og kosningaréttar.

Við þessar aðstæður varð 20. aldar upphluturinn að veruleika. Nýr íslenskur, þjóðlegur kvenbúningur byggður á aldagamalli búningahefð.

Búningurinn náði miklum vinsældum. Hann varð daglegur búningur margra ungra kvenna í upphafi aldarinnar. Kvenna sem klæddust honum út lífið.

Ekki völdu þó allar ungar konur að klæðast upphlut og undirstrika þannig þjóðerni og stolt. Þær völdu heldur að klæðast nýjustu tísku frá Evrópu.

Áhrif á hippatímabilinu

Svo fór að þegar leið á öldina fækkaði konum sem báru búninginn. Um 1970 þegar hippatímabilið stóð sem hæst átti búningurinn verulega undir högg að sækja.

Alþjóðleg unglingatíska hafði yfirtekið heimsbyggðina. Innflutningur og úrval á fatnaði jókst. Stúlkur fóru að ganga í buxum, stuttum pilsum og fleygnari toppum. Gömlu búningarnir með síðum pilsum í þungum efnum minntu á gamla bændasamfélagið. Samfélag sem var að líða undir lok.

En um sama leyti var hópur fólks sem vildi halda gömlum gildum á lofti. Hluti af því var varðveisla búninganna. Þar fóru fremstir í flokki meðlimir í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur og Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.

Upp úr 1970 var 19. aldar upphlutur tekin í notkun sem sérstakur búningur. Konur í Þjóðdansafélaginu sem höfðu dansað í 20. aldar upphlutum saumuðu sér litríka búninga í anda þeirra gömlu.

Það fór því svo að upphluturinn hefur lifað ágætu lífi sem sparibúningur. Á það líka við um aðra íslenska þjóðbúninga. Áhugi á búningum hefur frekar aukist á undanförnum árum.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Upphlutur

Nútíma konur í 19. og 20. alda upphlutum

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Upphlutur

19. og 20. aldar upphlutir

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 19. og 20. aldar upphlutir og 20. aldar peysuföt

Fríður hópur nemenda Annríkis ásamt kennara sínum. 19. og 20. alda upphlutir, 20. aldar peysuföt

Upphlutur