Möttull

 og sjöl á 19. og 20. öld

Alla tíð hafa íslendingar þurft að klæða af sér veður og kulda. Yfirhafnir hafa alltaf verið nauðsynlegar. Þær hafa þróast í gegnum aldirnar.  Talið er að Íslendingar hafi lært að prjóna á 15.-16. öld. Þá hafa prjónuð sjöl örugglega verið þær yfirhafnir sem flestir áttu.

Á tímum faldbúninganna notuðu konur hempur. Þær áttu uppruna sinn í prestshempum. Á 19. öld eignuðust konur nýja yfirhöfn með nýjum skautbúningi. Möttul, sú flík varð afar vinsæl og þróaðist mikið í gegnum árin.

Hempa að hætti fornkvenna

Möttull er flík sem Sigurður Guðmundsson hannaði við skautbúninginn. Hann sá fyrir sér hempu að hætti fornkvenna.

Teikningar hans af möttli og mynstur hafa varðveist. Mynstrin eru sömu gerðar og á skautbúningi en þó einfaldari.

Elsti möttullinn er varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands. Hann saumaði Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási, Hegranesi. Skautbúningur hennar, saumaður á sama tíma er einnig varðveittur í Þjóðminjasafni Íslands.

Sigurlaug saumaði annan möttul með seinni búningi sínum. Hann er varðveittur í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Möttull með loðkanti.

Möttull með skinni

Möttull Sigurðar í endurgerð Hildar í Annríki - Þjóðbúningar og skart.

Möttull Sigurðar í endurgerð Hildar

Möttull Sigurðar í endurgerð Hildar í Annríki - Þjóðbúningar og skart. Bakhluti.

Möttullinn er stuttur með útsaum í brúnum allan hringinn

Möttull Sigurðar

Möttull Sigurðar er nánast eins og sjal. Möttullinn hefur enga axlarsauma en nokkra sniðsauma í hálsmáli að aftan. Hann er beinn fyrir að ofan en boginn í neðri brún. Hann er stuttur. Nær rétt niður undir mitt pils. Og myndar hvöss horn að framan.

Möttullinn er hnýttur saman að framan með snúrum sem festar eru í hvora hlið. Hann er útsaumaður í útbrúnir allan hringinn.

Til er möttull sem er skreyttur flauelisskurði og snúrum í stað útsaums. Hann er varðveittur á Heimilisiðanaðarsafninu á Blönduósi.

Möttullinn átti eftir að þróast mikið frá upprunalegri hugmynd Sigurðar. Má segja að sú þróun hafi farið í tvær áttir. Annars vegar í enn styttri flík „mattelíu“. Hinsvegar í síðan möttul með miklum skinnkanti.

Þróunin varð einnig sú að konur fóru að nota möttullinn sem yfirhöfn við alla sína búninga.

Möttull með skinnkanti

Um aldamótin 1900 virðist möttullinn hafa verið kominn í það form sem við þekkjum. Síð flík sem nær niður að útsaumi eða niður fyrir svuntu.

Möttullinn er með hliðar-, axlar- og sniðsauma til að forma hann eftir líkamanum. Hann er frekar þröngur um axlir og víkkar aðeins niður á við. Á boðunga, í brjósthæð er sett möttulpar til að krækja hann saman. Innan á boðunga í olnbogahæð eru saumaðir renningar. Þannig er hægt að halda möttlinum þéttara að sér.

Möttlar hafa varðveist í miklu magni sem sýnir fjölbreytileika þeirra. Þeir hafa verið saumaðir í litríkt flauel, silki og mynstruð efni. Einnig hafðir þeir verið svartir úr silkisatíni eða úr fínum ullarefnum. Fóðraðir að innan með fínu litríku fóðri.

Í útkant er saumaður skinnkantur. Hann getur verið hvítur með svörtum skottum, (hermelínskinn). Einnig dökkbrúnn eða svartur úr minnka-, refa- eða kanínuskinni.

Á seinni hluta 20. aldar hefur möttullinn þróast sem fyrr. Í dag er hann oftast saumaður úr léttu svörtu ullarefni. Gjarnan fóðraður með litríku satínfóðri. Í stað skinnkants í útbrún er nú oft saumaður flaueliskantur.

Skinn er dýrt hráefni og ekki á allra færi að vinna það. Í stað möttulspars sem geta verið dýr er oft setur stór svartur krókur. Þannig hefur þróunin komið til móts við okkar þarfir og væntingar.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma Rún í skautbúningi og möttli.

Telma Rún í grænum flauelismöttli með skinnkanti

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Möttulpar.

Möttulpar, tveir kúplar svipað beltispari

Möttulpör

Möttulpör eru afar fjölbreytt, allt eftir efnum og aðstæðum. Þau eru oftast smíðuð úr silfri og gyllt ef þess er óskað.

Á öðrum hlutanum er lykkja og hinu megin krókur. Þau geta verið tveir kúplar svipað beltispari. Þau geta verið litlar hálfkúlur sem festar eru á flatar plötur. Þannig eru oft 3-4 hálfkúlur á hvorum helmingi. Í hverri kúlu hangir gjarnan lítið lauf eða dropi.

Möttulpör geta verið steypt, handunnið víravirki eða loftverk.

Sjöl

Á seinni hluta 19. aldar eftir að verslunarhöftum lauk jókst innfluttningur mikið. Úrval efna og tilleggs til fatagerðar jókst verulega.

Þykk efnismikil sjöl urðu afskaplega vinsæl yfirhöfn á þessum tíma. Peysufatasjöl eins og þau voru oft nefnd, voru flutt inn í ýmsum gerðum. Þykk vetrarsjöl ýmist einlit eða köflótt.

Fín kasmírsjöl, litrík með fallegu mynstri. Svört sjöl úr fínni ull með löngu svörtu kögri. Þessi sjöl gátu verið allt að þrír metrar á lengd. Brotin saman eftir kúnstarinnar reglum veittu þau gott skjól fyrir veðrum og vindum.

Um aldamótin 1900 fóru konur að prjóna þunn eingirnissjöl. Þau urðu gríðarlega vinsæl með nýja 20. aldar upphlutnum. Ekki geta þau talist skjólflík fyrir veðri og vindum en ágæt til að bregða yfir sig innan húss. Eingirnissjöl hafa varðveist í miklu magni. Þau bera vitni um fagurt handbragð og handverksþekkingu formæðranna.

Sjalprjónn

Sjalprjónn er notaður til að festa peysufatasjölin saman yfir brjóstið. Hann getur verið af ýmsum gerðum. Langur svartur prjónn með stórri kúlu á endunum.

Hattaprjónar gátu líka nýst sem sjalprjónar. Gullsmiðir smíðuðu sérstaka sjalprjónar með ýmsu skrauti á endnum. Getur það verið lítið stykki úr víravirki t.d. dropi, blóm eða hjarta.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Sjöl vð íslenska búninga.

Sjöl af ýmsum stærðum og gerðum

Möttull