Barnabúningar

Drengjabúningur

Drengjabúningar eru endurgerðir á fatnaði karla frá 18. og fram á miðja 19. öld en í smækkaðri mynd. Ekki hefur fatnaður barna varðveist. Líklegast er að börn hafi borið svipaðan fatnað og fullorðnir. Skriflegar heimildir og teikningar sýna það. Fatnaðurinn var allur saumaður úr náttúrulegum efnum s.s. ull, bómull, hör og silki.

Búningurinn samanstendur af skyrtu, buxum og vesti.

 • Skyrtan er einföld, ljós nærskyrta, saumuð úr bómull eða hör
 • Buxur eru með hnepptri lokuklauf og hnepptum axlaböndum. Þær geta verið með síðum skálmum eða hnébuxur með hnepptum klaufum á skálmum. Buxurnar voru saumaðar úr ull; klæði eða vaðmáli. Oftast í dökkum litum þ.e. svart, blátt, grátt eða brúnt
 • Vestið er oftast tvíhneppt og hægt að hneppa á báða boðunga. Á því eru allt að 18 tölur og hnappagöt. Vestið er saumað úr ull; klæði eða vaðmáli og fóðrað með þéttu bómullarefni. Það getur verið í ýmsum litum. Bryddað með andstæðum lit t.d. blátt vesti með rauðum bryddingum

Búningurinn  er saumaður bæði í saumavél og í höndum en öll hnappagöt sem geta verið á milli 30-40 eru handgerð.

Ungir drengir bera ekki treyjur en gjarnan prjónaða peysu með laskaermum. Við búninginn er borin prjónuð húfa. Í háls er gjarnan hnýttur klútur úr bómull eða silki. Geta þeir verið í ýmsum litum.

Með hnébuxum eru bornir prjónaðir sokkar og sokkabönd, fléttuð eða spjaldofin. Áður fyrr voru notaðir sauðskinnsskór en í dag fer best á því að vera í dökkum, einföldum skóm án alls skrauts.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Farðir með börnum sínum. Öll í íslenskum búningum.

Eyrún Linnet og fjölskykda í íslenskum búningum

Stúlknabúningur

Heimildir um barnabúninga eru ekki miklar frá fyrri tímum. Þó eru til teikningar af stúlkum á 18. öld og eitthvað er til í rituðum heimildum. Um 1930 var farið að sauma 20. aldar upphluti á stúlkur. Tilefnið var Alþingishátíðin sama ár. Urðu upphlutir mjög vinsæll sparifatnaður.

Í dag er vinsælt að sauma upphluti á stúlkur frá tveggja ára aldri, sérstaklega 19. aldar upphluti. Þeir eru saumaðir úr sömu efnum, með sama sniði og fullorðinsbúningar. Búningarnir eru gjarnan hafðir þannig að auðvelt er að stækka þá svo þeir nýtist barninu í nokkur ár.

19. aldar upphlutur

Nafnið á við allar eldri gerðir upphlutsbúninga fyrir 1900.  Upphlutur er lítil ermalaus flík (vesti). Hann getur verið úr ullarklæði, vaðmáli, ullardamaski eða flaueli. Ýmsir litir voru á búningnum s.s. svart, blátt, rautt, grænt. Fór það eftir því hvaða litir voru framleiddir hverju sinni.

Á baki eru þrjár leggingar, ein fyrir miðju og krappir bogar sitthvoru megin við. Leggingar eru einnig yfir axlarsauma. Leggingarnar geta verið úr ýmsu efni s.s. flauelisborðum, líberíborðum, eða kniplingum. Ef notaðir eru flauelisborðar er gjarnan saumuð snúra með fram hliðum borðans eða litlir knipplingar (takkar).

Á framstykki eru mjóir hlýrar sem saumast við axlarsaum.  Boðungar eru sniðnir nokkuð beint fyrir að framan. Fremst á þeim er svartur flauelisrenningur og silkibrydding þar sem millur saumast á.

Millur eru notaðar til að reima upphlutinn saman og algengt er að þær séu 8-10 stk. eða 4-5 pör. Þær voru handunnið víravirki en oft steyptar úr silfri eða öðrum ódýrari málmi.

Aftan við flauelisrenning er settur borði til skreytingar. Það gat verið annaðhvort líberíborði silfur- eða gulllitur eða baldýraður borði.

Handvegir og hálsmál er bryddað með mjóum tilsniðnum renningum úr silki, ull eða flaueli sem geta verið í ýmsum litum.

Algengt er að þræða pilsið fast við upphlutinn svo búningurinn verði þægilegri í notkun.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Barnabúningar.19. alda upphlutir.

19. aldar upphlutir, fjör í pilsunum

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Barnabúningar.

19. aldar upphlutir

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 20. alda upphlutir, 19. aldar upphlutur og barna herrabúningur.

19. og 20. alda upphlutir og lítill herrabúningur

20. aldar upphlutur

Nafnið á við um upphlutsbúninga eftir 1900. Algengt hefur verið að sauma upphlutinn sjálfan úr flaueli t.d. rauðu eða bláu. Pilsið var haft svart með flaueliskanti að neðan. Einnig eru til svartir búningar.

Efni í pils hafa verið eftir framboði hverju sinni. Til dæmis úr ullarklæði, silkisatíni og polyestersatíni. Í dag er mest saumað úr góðum, léttum ullarefnum.

Á baki eru tvær bogaleggingar þar sem fínlegir kniplingar í silfri eða gylltu eru saumaðar utan með mjórri flauelisleggingu. Samskonar skreyting er á axlarsaumum. Stundum eru notaðir ódýrari innfluttir borðar í stað kniplinga.

Á framstykki eru mjóir hlýrar sem saumast við axlir. Framan á boðungum eru stífir flauelisborðar þar sem millur og borðarósir eru saumaðar á. Rósirnar geta verið úr silfri eða baldýraðar úr vír.

Millurnar eru 6-8 stk. eða 3-4 pör með reim og nál. Skartið getur verið ýmissar gerðar t.d. steypt eða handunnið víravirki. Það er alltaf úr silfri og gyllt ef þess er óskað.

Undir flauelisborðana eru settir teinar til að stífa upphlutinn að framan.

Í hálsmál og handvegi er bryddað með sérstöku mjóu bandi, herkúlesarbandi eða flauelisborðum.

Pilsið er gjarnan þrætt á upphlutinn svo búningurinn verði þægilegri í notkun.

Skyrta

 • 19. aldar skyrtan er hvít úr lérefti eða hör. Afar einföld í sniði, eingöngu misstórir ferningar, eða nokkurskonar miðaldaskyrta
  • Engir axlarsaumar en hálsmál klippt upp og klauf þar niður sem brotið er innaf og lagt niður við
  • Ermi er með ferning eða auka í handvegi. Klaufar eru framan á ermum sem lagt er niður við og líningar þar framan við. Hneppar með tölu eða hnappi
 • 20. aldar skyrtan getur verið úr ýmsum efnum og með ýmsu sniði. Notuð voru t.d. bómull, hör, polyester og nylon en oftast þunn efni. Litir og mynstur hafa einnig verið fjölbreytt í gegnum tíðina. Nú eru  einlitar ljósar skyrtur úr góðu og meðfærilegu bómullarefni vinsælar
  • Skyrtan er oftast sniðin upp í háls
  • Ermar eru gjarnan rykktar á kúpu og undir ermalíningar. Hnepptar saman með skyrtuhnöppum (mannséttur) eða fallegum tölum

Pils

Pilsið við 19. aldar upphlut er úr svörtu eða dökkbláu léttu ullarefni en alltaf svart við 20. aldar upphluti. Það getur verið með kanti að neðan í sama lit og upphlutsbolur.

Efnismagnið getur verið mismikið eftir því hversu efnismikið það á að vera. Síddin getur verið eftir smekk en er oft haft það sítt að hægt sé að nýta það í nokkur ár.

Pilsið er fellt í mitti undir streng. Jafnt allan hringinn nema að framan er slétt bil. Best er að hafa pilsið með klauf að framan og þræða það á upphlutinn svo búningurinn verði þægilegri í notkun.

Svunta

Svunta við 19. aldar upphlut er gjarnan höfð teinótt eða köflótt úr handofinni ull, bómull eða silki. Hún getur verið í ýmsum litum.

Við 20. aldar upphlut getur svuntan verið úr ýmsum efnum og var stundum eins og skyrtan. Þar ræður mest smekkur og efnisúrval hverju sinni.

Húfa

Við 19. aldar upphlut er notuð djúp svört eða dökkblá prjónahúfa með lituðum ullarskúf. Hólkur eða líberíborð hylur samskeytin.

Við 20. aldar upphlut er notuð grunn svört prjónahúfa með svörtum silkiskúf eða í sama lit og upphlutsbolur.  Hólkur eða líberíborði  hylur samskeytin.

Einnig er notaður sérstakur höfuðbúnaður, bátur. Fyrirmyndin af honum er skarðahúfa sem stúlkur notuðu á 18. öld. Bátur er gjarnan saumaður úr sama efni og upphlutsbolur. Hann er skreyttur með borðum, leggingum, baldýringu eða pallíettum. Á bátinn eru festir borðar sem bundnir eru með slaufu undir höku.

Skart

Belti er eingöngu notað við 20. aldar upphlut. Oftast belstispar og doppur saumað að flauelisteygju.

Belti geta verið af ýmsum gerðum, steypt eða víravirki. Unnin úr silfri og gyllt ef þess er óskað. Stundum í stíl við annað skart en ekki alltaf.

Annað skart er aðallega ermahnappar og næla sem upprunalega er nytjahlutur til að halda saman hálsmáli.

Skartið getur verið af ýmsum gerðum, steypt eða víravirki. Oft er reynt að fara ódýrari leiðir við gerð barnabúninga svo þau geti notið sín án þess að hafa áhyggjur af að vera svo fín að þau megi ekki hreyfa sig.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 17. júní í Hafnarfriði. Stúlkur í 19. aldar upphlutum.

Hér má sjá 20. aldar peysuföt, 19. aldar upphluti og faldbúning yngri

Annríki - Þjóðbúningar og skart á Sauðárkróki. Stúlka í 19. aldar upphlut og möttli.

Stúlka í upphlut og möttli

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Kolbún Ýr og dóttir í 19. aldar upphlutum.

19. alda upphlutir. Kolbrún Ýr saumaði báða búningana

Barnabúningar