Skautbúningsnámskeið

hjá Annríki – Þjóðbúningar og skart

Þriggja ára námskeiðsröð

  • Námskeiðsröðin skiptist í nokkur námskeið eftir hvernig búningur er saumaður
  • Saumaður er einn skautbúningur
  • Nemandi fær búninginn tilsniðinn eftir máli
  • Hafist handa við útsaum í pils. Einnig má nota flauelisskurð eða leggingar
  • Á tímabilinu eru kenndar ýmsar útsaums- og skreytiaðferðir svo sem blómstursaumur, skattering, baldýring, knipl, flauelisskurður og snúrulagning
  • Skreytingar á treyju eru á boðungum og framan á ermum. Baldýring, knipl eða snúrur
  • Belti má einnig skreyta með baldýringu eða snúrum
  • Saumaður er höfuðbúnaður, faldur og blæja
  • Búningurinn er saumaður úr bestu fáanlegum efnum. Efni og tillegg fást í Annríki

Ekki er mögulegt að setja nákvæmt verð þar sem mismunandi leiðir eru farnar við gerð búningsins.  Grunnkostnaður í efnum og námskeiðum er aldrei undir 500.000 kr sem deilist á öll þrjú árin. Verð á skarti er þar fyrir utan.

Leiðbeinendur eru Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri, kjólameistari og sagnfræðingur og Olga Kristjánsdóttir, kjólasveinn.

Fróðleikur

Skautbúningur var fyrst borinn 1859. Hann þróaðist í samstarfi Sigurðar Guðmundssonar málara og íslenskra kvenna.

Búningahugmynd Sigurðar var byggð á þjóðernisrómantík. Konan, móðirin, fjallkonan var í öndvegi þjóðar. Sigurður kunni einnig að meta listrænt handverk kvenna. Handverk sem fékk notið sín í skreytingum búninganna.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma Rún í skautbúningi.

Telma Rún í skautbúningi

Skrá mig á námskeið

Nánar um skautbúning

Efrihluti

  • Skauttreyja nær niður í mitti og er krækt saman að framan með krókum nema yfir hábarminn. Þar myndast op þar sem glittir í hvítt brjóstið
    • Treyjan er aðsniðin með samfelldum skreytingum meðfram boðungum og hálsmáli
    • Ermar eru ísettar með púffi í ermakúpu og þrengjast fram á úlnlið. Samskonar skreytingar eru á ermum og treyju
    • Skreytingar geta verið baldýruð blómamynstur með silfur- og gullþræði eða silki. Knipplingar eða snúrulagðir grískir og býsanskir bekkir
    • Treyjan er alltaf fóðruð og á 20. öld var gjarnan saumuð blúnda framan á ermar og í hálsmál
  • Brjóst er lítið hvítt stífað stykki úr lérefti sem notað er undir barm treyjunnar
    • Brjóst er langoftast hvítt og getur verið skreytt með ýmsum aðferðum
    • Algeng eru brjóst með hvítsaumi, blúndu úr lérefti eða heklaðri blúndu. Einnig eru til ámáluð brjóst
    • Fyrir kom að konur notuðu svart bjóst en það er ekki algengt nú til dags

Neðrihluti

  • Pils – samfella er ökklasítt pils með mikilli vídd og fellt undir streng í mitti
    • Pilsið getur verið lagt borðum en er oft með útsaumuðum bekk niður undir faldi
    • Algengustu aðferðir eru blómsturspor, skattering, flatsaumur, kúnstsaumur og lykkjuspor. Einnig er skreytt með flauelisskurði og snúrulagningu
    • Litasamsetning er mjög misjöfn, oft einlitt í grænu, ljósbrúnu eða gulleitu en líka svart
    • Til eru pils útsaumuð með miklu blómaskrúði og litríku
    • Garn í útsauminn er af ýmsum gerðum silki, árórugarn, perlugarn og ullargarn
    • Einnig eru til varðveitt pils með einlitum flauelisskurði í svörtu, brúnu, grænu og brúnleitu og er oft snúrulagt með fram mynstrinu
    • Útsaumurinn er hulinn á bakhlíð með skófóðri
  • Undirpils voru þarfaþing og fóru sniðin mikið eftir tískunni hverju sinni
    • Fram undir aldamótin 1900 báru konur gjarnan krínólínur
    • Er leið inn á 20. öldina minnkuðu undirpilsin og umfang þeirra varð minna
    • Undirpils gátu verið úr heimaofnum ullarefnum eða fínum bómullarefnum og þunnum gerviefnum seinnihluta 20. aldar

Höfuðbúnaður

  • Skautfaldurinn er alltaf hvítur, nokkurskonar húfa úr bómull fyllt upp með tróði, oft ull áður fyrr
    • Til að stífa faldinn er notaður pappi og stundum teinar
    • Utan yfir faldinn er önnur hvít húfa úr silki eða fínni bómull sem liggur laus nema fest niður að aftan
    • Faldurinn er festur í hárið með kambi og spennum
  • Blæja úr tjulli er sett yfir faldinn en hún er títuprjónuð í ytri húfuna neðst við höfuðið
    • Áður er hún dregin saman með þar til gerðu bandi svo hún passi utan um faldinn
    • Blæjan er oftast hvít en í upphafi notuðu konur líka svartar blæjur sem síðar urðu sorgartákn
    • Blæjur geta verið missíðar oftast niður á mitt bak en alveg niður undir gólf við brúðkaup
    • Tjullið var oftast úr bómull eða silki en nú er einnig notað polyestertjull
    • Blæjan getur verið með ídregnu blómamynstri úr hvítum fínum þræði og nánast alltaf með blúndu í útbrún
  • Hnúturinn er slaufa sem útbúin er úr fallegum hvítum eða ljósum satínborða. Hann er festur að aftan með títuprjónum og hylur þannig samskeyti blæju og spangar/koffurs/stjörnubands

Skart

  • Spöng, koffur eða stjörnuband er sett utan um höfuðbúnaðinn,  hnýtt saman að aftan  og hvílir á höfðinu
    •  Spöng er heil örlítið sporöskjulaga kóróna smíðuð úr silfri og gyllt ef þess er óskað
    • Hún er oftast óskreytt fyrir utan mynsturkant í neðri brún. Hún getur þó verið skreytt með ágröfnu blómamynstri, víravirki og jafnvel loftverki
    • Koffur er samansett úr miðjustykki að framan sem rís nokkuð hátt. Til hliðar eru 3-4 minni stykki sem hlekkjast saman. Koffrið er oftast skreytti víravirki og undir eru sléttar plötur
    • Stjörnuband er stífað hvítt léreftsband u.þ.b. 3-4 sm á breidd en á það eru festar stjörnur eða önnur smástykki svo úr verður langur renningur
    • Spöng og koffur er oftast sett utan um fald og blæju, en stundum undir tjullið. Stjörnuband sést mjög oft á gömlum myndum undir tjullinu
  • Belti eru gjarnan stokkabelti eða sprotabelti. Steypt eða skreytt víravirki. Belti getur verið svart flauelisbelti með baldýringu eða snúrulögðu mynstri
  • Næla er borin til skrauts í hálsmáli treyjunnar
  • Ermahnappar með laufi voru hafðir til skrauts. 4 – 6 hnappar á hvorri ermi

Skautbúningsnámskeið