Þekking formæðranna

Formæður okkar voru fjölhæfar handverkskonur. Þær kunnu að nýta sér það hráefni sem náttúran gaf þeim. Jurtalitun var eitt af því sem þær höfðu mikla þekkingu á. Þær þekktu vel eiginleika plantnanna og þá liti sem þær gáfu með mismunandi meðferð.

Á sumrin týndu þær ferskar plöntur og þurrkuðu til notkunar síðar. Þannig gátu þær litað ullina sem þær fengu af fénu. Þó mikið væri um fatnað í sauðalitunum sýna heimildir að þær lituðu bæði garn og fatnað.

Garnið var notað til dæmis í ofnar svuntur, prjónuð sjöl og leppa. En það var einnig notað í fagran útsaum og knipl til að skreyta búningapilsin.

Á Þjóðminjasafni Íslands eru varðveittir slíkir gripir sem sýna ótrúlegan fjölbreytileika við gerð skreytiganna.

Fyrstu skrefin í jurtalitun

Hér í Annríki höfum við jurtalitað garn í nokkur ár. Í upphafi var hugmyndin að lita útsaumsgarn fyrir nemendur í faldbúningssaumi.

Við byrjuðum smátt, gerðum ýmsar tilraunir og uppgötvuðum þetta dásamlega náttúruundur. Uppgötvuðum leynda fegurð planta sem oft teljast  til  arfa í garðinum okkar.

Njóli, snarrótarpuntur og rabarbari gefa ótrúlega fjölbreytta gula og græna liti. Innflutt efni eins og Indigo, kaktuslús og krapprót eru efni sem flutt voru til landsins. Þau gefa bláa, bleika og rauða liti en sé þeim blandað við íslenskar jurtir birtast allir heimsins tónar.

Þó afurðirnar eftir fyrsta sumarið yrðu ekki miklar þá bættist verulega í reynslubankann.

Litagleði í Annríki

Eftir það varð ekki aftur snúið. Sumarið 2013 var mikið litasumar og miklir draumar urðu að veruleika. Heilmikið ullarband, lopi og eingirni var keypt hjá Ístex. Í samstarfi við Lovísu Ásbjörnsdóttur var sumarið fullt af litum og gleði.

Þvotturinn á snúrunum í Annríki var sá litríkasti í öllum Hafnarfirði. Í ágúst var búið að lita heilmikið magn og bara eftir að finna því verkefni og hlutverk.

„Blómstranna móðir“

Það hefur lengi verið draumur okkar að gefa fleirum tækifæri til að njóta handverks formæðranna. Ekki hafa allir hug á að sauma sér faldbúning sem hafa sýnt handverkinu áhuga. Þess vegna fórum við í það verkefni að útbúa útsaumspakkningar með mynstrum af pilsum formæðranna. Og auðvitað með jurtalituðu garni héðan úr Annríki.

Útsaumslínan fékk heitið „Blómstranna móðir“ til heiðurs öllum okkar formæðrum. Nafnið er komið frá Guðrúnu Skúladóttur, þeirri sem saumaði þann fagra Viðeyjarbúning. Hann er varðveittur á Victoria & Albert Museum í London. Guðrún var annáluð hannverkskona og í erfiljóði var hennar minnst sem blómstranna móður.

Yndislegt sumarverk

Jurtalitun er dásamlegt sumarverkefni. Í júní þegar gróðurinn er kominn vel upp úr jörðinni og litir og ilmur allsstaðar þá hefjumst við handa.

Það eykur gleðina á þessum bjarta og fallega árstíma að standa yfir rjúkandi pottum. Hræra í ilmandi töfraseyði og upplifa kraftaverk náttúrunnar í öllum sínum litum. Öll litunaraðstaðan er úti undir berum himni og því óhjákvæmilegt að njóta útiveru á sama tíma.

Jurtalitun er ótrúlega einfalt og gefandi verk. Allir ættu að gefa sér tækifæri til að prófa. Mikið hefur verið gefið út af bókum og ritum á síðustu árum sem auðvelda verkið. Allt sem þarf er áhugi og þolinmæði.

Góða skemmtun 😊

Áhugaverð meistaraprófsritgerð Guðrúnar Bjarnadóttur í Hespu