Hildur og Ási vöktu athygli

Ég hélt fyrirlestur um þróun upphlutarins frá faldbúningi fram á 21. öldina. Hvernig upphluturinn sem flík telst táknrænn í sjálfum sér. Hvaða táknræn gildi hefur hann haft í gegnum söguna. Ekki síst í upphafi 20. aldar í baráttu kvenna fyrir auknum réttindum.

Þjóðbúningaráð starfa í hverju landi

Norðurlöndin hafa í fjölda ára átt samstarfsvettvang á sviði þjóðdansa og þjóðbúninga. Þjóðbúningaráð hafa verið starfrækt í hverju Norðurlandanna fyrir sig.

Samstarfslöndin eru Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Ísland. Meðlimir þeirra hafa hist á þjóðbúningaráðs- þingum á þriggja ára fresti. Þingin eru haldin í hverju landi eftir ákveðinni röð.

Fjöldi þingesta er fastákveðinn 60 og hefur hver þjóð 12 sæti en Ísland 5. Er það gert vegna íbúafjölda hér. Oft hefur reynst erfitt að fylla upp í þátttökufjöldann. Ég tók fyrst þátt þegar þingið var haldið hér heima 2006.

Næst í Svíþjóð 2009 og síðan í Noregi 2015.

Forsætisráðuneyti skipar í ráðið

Frá aldamótum hefur þjóðbúningaráð á Íslandi verið skipað af Forsætisráðuneytinu. Þar sitja meðlimir frá 5 aðilum. Þjóðminjsafni, Árbæjarsafni, Kvenfélagasambandinu, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og Þjóðdansafélaginu.

Þjóðbúningaráð hefur skipulagt þing hér á landi og séð um að senda þáttakendur út.

Langar ykkur til Noregs?

Það var í apríl 2015 að Ási hitti vinkonu okkar, kvenfélagskonu. Hún spurði hvort við hefðum ekki áhuga á að fara til Noregs. Svo virtist vera að ekki væri áhugi innan ráðsins að senda þáttakendur vegna fjárskorts.

Þingið skyldi haldið 9.-14. ágúst og því stuttur tími til stefnu. Aldrei var spurning um að fara og auðvitað með fyrirlestur og búningasýningu. Því þurfti að láta hendur standa fram úr ermum.

Valdres folkemuseum

Allir þátttakendur hittust í Bergen en þaðan var siglt til Sogn. Ekið var áfram í rútu til Fagernes þar sem þingið fór fram í Valdres folkemuseum. Í Fagernes er einnig staðsett „Norsk Institutt for bunad og folkedrakt“.

Norðmenn tóku virkilega vel á móti gestunum á þessum fallega stað. Frá fyrri þingum þekktum við nokkuð af þátttakendum og því fagnaðarfundir þegar við hittum þau aftur.

Áhugaverð dagskrá

Yfirskrift þingins að þessu sinni var „Folkedrakt í fortid og samtid – seremoni, form og bruk“. Dagskráin var áhugaverð og fjöldi fyrirlestra um hin fjölbreyttustu efni.

Hvert land getur verið með tvo 45 mínútna fyrirlestra. Auk þess eru 20 mínútna fyrirlestrar fyrir bóka- og búningakynningar.

Aðalfyrirlesarar voru að þessu sinni.

Noregur:

Professor Mikkel B. Tin; Metallbeslåtte belter: historikk og symbolikk

Fyrstekonservator Björn Sverre Hol Haugen, ph.d; Draktpraksiser på 17- og 1800-tallet – og hvordan få tilgang til kunnskap om dem?

Svíþjóð:

Museichef och dr. Håkon Liby; Livet, döden, dräkten – Dräktens variation i livscykeln, speglad i Hälsingslands folkliga dräktskick

Fil.dr. Ulla Centergran; En grön rand för skogen och en blå rand för havet – om de svenska bygdedräkternas sybolvårld

Danmörk:

Museuminspektör Inge Christiansen; Timeglas, hjerter og kors, symboler i 1800-tallets dåbstöj

Dragtinstruktör Anna-Margrethe Johson; Krone, fletter, bore og flettetöj – sort hue med guld. Symboler hos almuens brude i 1750-1870

Finnland:

Anna-Maija Bäckman; Folklig tröja som blev kommunens symbol

Dosent Leena Vakleapää; Folkdräkt, symbol och varumärke. Aspekter av den blommande kvinnodräkten från Sääksmäki

Ísland:

Guðrún Hildur Rosenkjær; Utviklingen av den tradisjonelle islandske kvinnebunaden „upphlutur“ og symbolverdien af den i fortid, nåtid og fremtid

Fyrirlesturinn minn fjallaði um þróun upphlutarins frá faldbúningi fram á 21. öldina. Hvernig upphluturinn sem flík telst táknrænn í sjálfum sér. Hvaða táknræn gildi hefur hann haft í gegnum söguna. Ekki síst í upphafi 20. aldar í baráttu kvenna fyrir auknum réttindum.

Sérfræðingar á hverju sviði

Eins og sjá má á nöfnum og titlum fyrirlesara er hér um að ræða sérfræðinga á hverju sviði. Við skynjuðum líka vel hversu langt kollegar okkar eru komnir í sínum rannsóknum. Það á við á öllum  sviðum búninganna, búningaskarts og búningahefða.

Það er gott og nauðsynlegt að upplifa slíkar samkomur til að átta sig á hvert við viljum stefna. Og það er gleðilegt frá því að segja að okkar erindi var mjög vel tekið. Að því loknu lagði fjöldi manns leið sína til okkar til að hrósa og þakka fyrir. Í slíku hrósi liggur einmitt sú hvatning sem þarf til að drífa hjólin.

Kynning á faldbúningum

Auk erindisins vorum við með kynningu á tveimur faldbúningum. Annar frá 18. öld og hinn frá 19. öld. Kynningin fór fram kvöldið áður og vöktu búningar og skart mikla athygli. Við Ási stóðum fyrir svörum og virtist fólk undrandi á að þetta væri allt okkar verk.

Fjöldi styttri erinda og kynninga fóru fram. Allt mjög áhugavert og gaman að sjá hvað fólk er að fást við. Hefð er fyrir því að vera með „minimessu“. Þar geta þeir sem vilja selja vöru eða deila upplýsingum tekið þátt.

Gestir í þjóðbúningum

Síðasta daginn klæddust þinggestir þjóðbúningum sinna landa og fögnuðu áfanganum.

Fyrst var ekið til Reinli Stavkyrkje og hún skoðuð. Um kvöldið fór fram hátíðarkvöldverður með góðum mat, dans, músík og söng. Á hátíðarkvöldverðinum er venja að gestir þakki fyrir sig með góðri gjöf. Við færðum gestgjöfunum bækur Þórs Magnússonar Íslenzk silfursmíð. Það var Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður sem lagði til bækurnar fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands. Kunnum við henni bestu þakkir fyrir.

Síðast en ekki síst má nefna skýrslu sem „Norsk institutt for bunad og folkedrakt“ gaf út. Þar eru allir fyrirlestrar þingsins birtir og eykur það enn frekar gildi þingsins.